Leikaravalið í Iron Man 3 heldur áfram að stækka en þegar er nýbúið að tilkynna það að Ben Kingsley muni leika illmenni myndarinnar, Mandarin. Nú hefur Guy Pearce gengið frá samningum sínum og mun fara með hlutverk Alrich Killian, sem harðir aðdáendur myndasagnanna ættu að þekkja nokkuð vel (a.m.k. þeir sem vita hvað „extremis“ er)
Pearce, eins og eflaust margir hérna vita, hefur ekki verið ofsalega áberandi í stórmyndum síðustu árin og er sennilegast enn þekktastur í dag fyrir aðalhlutverkið í Memento ásamt L.A. Confidential. Einnig fer hann með aðalhlutverkið í spennumyndinni Lockout, sem frumsýnd verður í næsta mánuði hérlendis.
Óneitanlega lítur Iron Man 3 sífellt betur út og hefur leikstjóri myndarinnar Shane Black (Kiss Kiss Bang Bang) sagt að hann ætli sér að gera sjálfstæða kvikmynd sem mun ekki reiða á margar Avengers-tengingar, þótt það verði eflaust einhverjar fáeinar tilvísanir hér og þar.
Myndin fer í tökur eftir mánuð og er reiknað með bíóútgáfu þann 3. maí 2013. Einnig verður Thor 2 frumsýnd næsta sumar, og Captain America 2 ári eftir það. Ekkert hefur enn heyrst í sambandi við nýja Hulk-mynd með Mark Ruffalo.