Perdition ekki óskarsins virði?

Fyrir stuttu sögðum við frá því að Dreamworks kvikmyndaverið ætlaði sér að setja nýju Tom Hanks myndina, The Road To Perdition í takmarkaða dreifingu nú í desember til að myndin ætti möguleika á því að fá óskarinn næst. Nýjustu fregnir herma að myndin hafi verið sýnd fyrir aðalmenn Dreamworks, og að þeim hafi þótt lítið til myndarinnar koma. Gæti jafnvel farið svo að þeir ætli sér að sýna hana bara með venjulegri breiðri dreifingu og reyna að ná peningum inn á hana, en láta alla drauma um verðlaun henni til handa eiga sig og því ekki sýna myndina í neinum völdum kvikmyndahúsum áður. Jafnvel aðalleikari myndarinnar, Hanks, hefur sagt auglýsingafólki innan fyrirtækisins að hann vilji ekki láta hugsa um þetta hlutverk sem óskarsverðlaunahlutverk honum til handa svo að ekki sé farið að sníða auglýsingaherferðina með það í huga. Það lítur því ekki vel út með þessa næstu mynd leikstjórans Sam Mendes eftir gríðarlega velgengni hans með American Beauty, og sýnir kannski að gæfan er hverful í kvikmyndaheiminum.