Perlman og del Toro vilja Hellboy III

Kvikmyndaleikarinn Ron Perlman sem leikið hefur titilhlutverkið í tveimur Hellboy myndum, sem gerðar eru eftir samnefndum teiknimyndasögum, vonar að gerð verði mynd númer þrjú: „Alltaf þegar ég hitti Guillermo [ … del Toro leikstjóra Hellaboy myndanna ], þá eyðum við alltaf smá tíma í að ræða þetta. Og trúðu mér, þegar við kláruðum Hellboy II, vorum við orðnir svo þreyttir að hvorugur okkar vildi nokkurntíma heyra á Hellboy minnst framar,“ sagði Perlman í samtali við Empire kvikmyndaritið.

Samtalið var tekið í tilefni af frumsýningu geimskrímslamyndarinnar Pacific Rim sem Guillermo del Toro leikstýrir og Perlman fer með hlutverk í.

hellboy-ron-perlman

„Síðan leið eitt ár og ég áttaði mig á að við vorum búnir að koma aðdáendum Hellboy á bragðið, og Hellboy gengur svo mikið út á söguframvinduna [….]“

Hellboy II: The Golden Army kom út árið 2008 og síðan þá hefur lítið gerst hvað framhald varðar, en einkum er því um að kenna hve del Toro er upptekinn í öðrum verkefnum auk áhugaleysis mögulegra fjármögnunaraðila.

„Bæði Guillermo og ég viljum gera þetta. Selma ( Blair ) og Doug ( Jones ) vilja það líka, þetta er bara spurning um að finna einhvern sem trúir því að myndin muni skila fullt af peningum í kassann.“

Pacific Rim kemur í bíó 12. júlí í Bandaríkjunum og fimm dögum síðar hér á Íslandi.