Phoenix og frægir einstaklingar

Framleiðslufyrirtækið Phoenix er með tvær myndir í undirbúningi, sem báðar eru byggðar á sjálfsævisögum frægra einstaklinga. Sú fyrsta er Yeager: An Autobiography og er sjálfsævisaga Chuck Yeager en hann var fyrsti maðurinn til að rjúfa hljóðmúrinn og er einn frægasti flugmaður allra tíma. Hún verður framleidd af Richard Zanuck og verður dreift af Fox. Hin myndin er vafasamari, en hún heitir Official Assassins. Svo virðist, sem Phoenix og framleiðslufyrirtæki Nick Nolte sem heitir Kingsgate Productions, hafi fyrir einhverjum árum keypt réttinn á fyrsta hluta sjálfsævisögu Peter Mason, en hann var njósnari fyrir bresku leyniþjónustuna MI6. Fyrsti hlutinn fjallar um hvernig hann elti uppi gamla nasista og glæpamenn úr síðari heimsstyrjöldinni og þessi hluti heitir einmitt Official Assassin. Rétturinn til að kvikmynda þessa bók er runninn út, en samt sem áður er fyrirtækið með í undirbúningi mynd með þessu nafni, og ef í ljós kemur að verið sé að vinna úr sama efni, má búast við lögsóknum og kærum á hendur fyrirtækinu.