Pöbbarölt

Þessi grein birtist fyrst í ágústhefti Mynda mánaðarins.

Það er komið að síðasta hluta þríleiksins „Blóð og ís“ sem hófst með Shaun of the Dead, hélt áfram með Hot Fuzz og endar nú með pöbbaröltsmyndinni The World’s End sem segja má að beri nafn með rentu. Já, þeir félagar Simon Pegg og Nick Frost mæta til leiks á ný í september ásamt leikstjóranum Edgar Wright með síðasta hluta þessa magnaða þríleiks sem enginn vissi reyndar að væri þríleikur fyrr en núna. Allir vita hins vegar að hann er magnaður, a.m.k. þeir sem sáu Shaun of the Dead og Hot Fuzz, tvær af betri gamanmyndum síðari ára.

worlds endss

Í þetta sinn leika þeir Simon og Nick æskuvinina Gary og Andrew sem ásamt þremur öðrum ákveða að hittast í gamla heimabænum og endurtaka pöbbarölt sem þeir fóru á fyrir 20 árum en náðu ekki að klára í það skiptið. Pöbbaröltið gengur út á að heimsækja 12 pöbba í sama röltinu, fá sér tvo stóra á hverjum þeirra og enda svo á krá sem heitir The World’s End. Sá eini sem hefur raunverulegan áhuga á röltinu og er spenntastur fyrir því er Gary, enda er hann hvatamaðurinn. Hinir svona fylgja með fyrir kurteisissakir og eiga satt að segja ekki von á miklu. Það á hins vegar eftir að breytast þegar félagarnir uppgötva að það er ekki allt með felldu í bænum. Svo virðist sem íbúarnir séu ekki alveg með sjálfum sér, a.m.k. fæstir þeirra, og það fæst staðfest þegar í ljós kemur að þeir eru í raun geimverur sem hafa ekkert minna en heimsyfirráð í hyggju.Pöbbaröltið á því eftir að breytast í kostulega baráttu fimmmenninganna, ekki bara fyrir eigin lífi og limum heldur mannkyninu eins og það leggur sig.

Þegar þetta er skrifað er nýbúið að frumsýna The World’s End í Bretlandi og segja þeir sem séð hafa myndina vera stanslausa hláturveislu og skemmtun frá upphafi til enda. Það má því alveg fara að láta sig hlakka til.