Red State er mynd sem þónokkuð margir bíða spenntir eftir að komi út á næsta ári, en nú hefur fyrsta stiklan úr myndinni lent á netinu. Red State er bæði skrifuð og leikstýrð af Kevin Smith, sem hefur hingað til haldið sig við gamanmyndir á borð við Clerks, Chasing Amy og Zack & Miri Make a Porno, en þetta mun vera hans fyrsta hrollvekja.
Myndin fjallar um nokkra unglinga sem verða fyrir barðinu á ofsatrúarmanninum séra Abin Cooper og fjölskyldu hans sem hefur tekið það að sér að útrýma syndurum sem verða á vegi þeirra. Smith átti lengi vel erfitt með að fjármagna myndina þar sem fá kvikmyndaver vildu snerta Red State, svo hrottaleg þótti hún, en nú þegar fyrstu brot hafa birst á netinu naga ófáir framleiðendurnir á sér handabökin.
Ekki enn er vitað hvenær Red State verður frumsýnd hér á landi, en hún mun fyrst líta dagsins ljós á Sundance Film Festival vestanhafs. Stiklan er tekin af vefsíðu sem Kevin Smith sjálfur rekur, www.smodcast.com, en þar má alla jafna sjá nýjust fréttir varðandi myndina.
– Bjarki Dagur