Christina Ricci hefur í gegnum tíðina heillast af óvenjulegum persónum þegar hún velur sér hlutverk til að leika í kvikmyndum, sem er líklega ástæðan fyrir því að hún tók að sér nú nýlega hlutverk hins þekkta meinta morðkvendis Lizzie Borden, í nýrri sjónvarpsmynd sem gera á um hana.
Lizzie Borden var sökuð um að hafa myrt stjúpmóður sína og föður með exi árið 1892. Fræg er barnagælan um Borden sem hljómar eitthvað á þessa leið:
Lizzie Borden took an axe,
gave her mother forty whacks;
when she saw what she had done,
she gave her father forty-one.
Fjallað hefur verið um mál Borden í ótal bókum og sjónvarpsþáttum í gegnum tíðina.
Myndin mun fjalla um réttarhöldin yfir Borden eftir morðin á Andrew Jackson Borden og annarri eiginkonu hans, Abby Durfee Gray Borden.
Myndin er enn stutt á veg komin, þó að Ricci sé búin að ganga frá ráðningu sinni í hlutverkið, en vitað er að Nick Gomez mun leikstýra og Judith Verno framleiða fyrir Sony Pictures Television.
Myndin verður sýnd á Lifetime sjónvarpsstöðinni bandarísku.