RIFF velur Bríó sem hátíðarbjór

Í fréttatilkynningu frá RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, segir að hátíðin hafi valið Bríó sem hátíðarbjór. Bríó var fyrsti bjórinn sem brugghúsið Borg setti á markað fyrir hartnær fjórum árum og var þróaður í náinni samvinnu við Ölstofu Kormáks og Skjaldar, að því er segir í tilkynningunni, en bjórinn er nefndur efir góðum vini Kormáks og Skjaldar, fjöllistamanninum Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni sem lést langt fyrir aldur fram árið 2009.  Steingrímur starfaði sem hljóðmaður hjá Sjónvarpinu en síðar við hljóðvinnslu kvikmynda og auglýsinga hjá Bíóhljóði.

BRIO-RIFF

„Hann var afskaplega skemmtilegur maður, mikill sagnameistari og tryggur viðskiptavinur Ölstofunnar,“ segir Kormákur í tilkynningunni.

„Hann var kallaður Bríó – en Bríó er gamalt ítalskt orð yfir gleði. Bríó er eiginlega sérstakur lífsstíll og orðið lýsir þeim sem kunna að njóta lífsins og lystisemda þess en stilla öllum áhyggjum í hóf. Það er gaman að geta heiðrað minningu Steingríms með þessum hætti og haldið lífsspeki hans á lofti í leiðinni,“ segir Kormákur.

Í minningu hljóðmannsins Steingríms Eyfjörð veitir Ölgerðin Egill Skallagrímsson verðlaun í flokki íslenskra stuttmynda fyrir besta hljóðið. Verðlaunin nefnast Bríó-verðlaunin.

Fyrir áhugasama þá má geta þess að miðasalan á RIFF 2013 opnaði í dag í Tjarnarbíói.

Á meðfylgjandi mynd skálar Otto Tynes frá markaðsdeild RIFF við þá Skjöld og Kormák frá Ölstofunni.

Stikk: