Ron Burgundy gefur út ævisögu

293.WillFerrell.tg.043010Fréttalesarinn glæsilegi Ron Burgundy skrifar nú æviminningar sínar, en þær ku eiga kallast: Let Me Off at the Top! My Classy Life and Other Musings, eða í lauslegri íslenskri þýðingu: Láttu mig úr á toppnum! Flott líf mitt og aðrar hugleiðingar.

„Ég veit ekki hvort að þetta er stórkostlegasta ævisaga sem rituð hefur verið. Ég er of nátengdur verkefninu,“ sagði Burgundy. „En ég segi þó: í fyrsta skiptið sem ég settist niður og las bókina … þá grét ég eins og eitthvað bannsett smábarn, og það er nú eitthvað!“

Samkvæmt hálvarlegri fréttatilkynningu frá Crown Archetype, undirforlagi hins þekkta útgáfufélags Crown Publishing Group sem er í eigu Random House, þá mun bók Burgundy kafa ofan í æsku fréttaþularins, fjalla um störf hans með Action 4 fréttateyminu, um konurnar í lífi hans og ástkæran hund hans, Baxter.

„Listinn yfir goðsagnakennda bandaríska fréttaþuli er ekki langur: Edward R. Murrow, Walter Cronkite og svo auðvitað Ron Burgundy,“ sagði Mauro DiPreta, ritstjóri hjá Crown Archetype. „Bókin mun gefa Ron færi á að segja sögu sína á mun innilegri hátt. Let Me Off at the Top! verður sígild um alla framtíð.“

Bókin verður fáanleg á prenti og á netinu frá og með 19. nóvember nk.

Anchorman 2: The Legend Continues, þar sem Burgundy er einmitt aðalpersónan, túlkuð af Will Ferrell, kemur í bíó í Bandaríkjunum 20. desember nk.