Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna á sér marga aðdáendur, og þessi frétt ætti því að gleðja þá, en væntanleg er mynd á næsta ári um forsetann, sem var áður vinsæll kvikmyndaleikari og ríkisstjóri í Kaliforníu, eftir að leikferli hans lauk.
Það er þó hætt við því að myndin verði gagnrýnin, enda er handritshöfundurinn ekki í hópi aðdáenda forsetans.
Myndin á að teygja sig yfir nær allt líf Reagans, eða allt frá uppvexti hans og þar til hann slær í gegn sem kvikmyndastjarna og verður svo valdamesti maður í heimi.
Myndin á að hefjast á banatilræði sem Reagan var sýnt árið 1981, og mun sagan verða sögð í leiftursögnum aftur í tímann og svo fram í tímann á víxl.
Myndin á að heita Reagan, og er áætlað að hún kosti 30 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu. Ekki er búið að ráða neina leikara eða leikstjóra.
Myndin verður byggð á tveimur metsölubókum um forsetann fyrrverandi eftir Paul Kengor, The Crusader og God and Ronald Reagan.
Handritshöfundur er Jonas McCord, sem eins og áður sagði, er ekki aðdáandi Reagans og hans pólitíkur.
„Ég var þeirrar skoðunar að í besta falli væri hann slæmur leikari, og í versta falli trúður,“ sagði McCord.
McCord sem áður hefur skrifað handrit að myndunum Malice og The Body, segir að hann hafi dregist að verkefninu þegar hann rannsakaði uppvöxt forsetans. Hann segir að barnæska hans hafi verið jafn súrrealísk og Norman RockWell málverk, faðir hans var kaþólskur alkohólisti, móðir hans kristin, bróðir hans kaþólikki, og mikill umgangur leigjenda var á heimilinu.
Sjónvarpsþáttaseríur um Reagan frá árinu 2003 með James Brolin í aðalhlutverkinu, voru umdeildar vegna þess að mönnum þótti of mikilla vinstri áhrifa hafa gætt við gerð hennar, og voru þær teknar úr sýningu á CBS, en sýndar á kapalsjónvarpsstöðinni Showtime, og aðeins 1,2 milljónir manna sáu seríurnar.