Sá svali, sá gáfaði og sá vitfirrti…morðingi

Morðingjar í bíómyndum og þáttum eru oft á tíðum hreint magnaðar persónur. Hinn vitsmunalegi fjöldamorðingi skýtur oft upp kollinum en hann er sá sem virðist gáfaðri en flestir aðrir. Hann er yfirleitt fjárhagslega vel stæður og í góðri vinnu, vel metinn eða jafnvel dáður af jafningjum og með eindæmum orðheppinn. Hann er menningarlega sinnaður með góðan fatasmekk og fer létt með að heilla aðra með hnyttni sinni og kunnáttu og, oftar en ekki, aðlaðandi útliti

.Hannibal Mads          John_Doe_2

Svo er það einfarinn með yfirlýsingu að leiðarljósi. Hann er líkari skráðum heimildum um fjöldamorðingja að því leyti að hann lætur lítið fyrir sér fara, vinnur yfirleitt ómerkilega vinnu og er félagslega heftur að einhverju leyti. Í skemmtanaheiminum er hann þó oft ómannlega þolinmóður í verki sínu og með ofurflókið ráðabrugg sem felur í sér yfirlýsingu sem flestum er vitsmunalega ofurliði borið.

Þessir morðingjar eiga það sameiginlegt að vera nær undantekningarlaust slíkir sadistar að meðlimir spænska rannsóknarréttarins myndu ugglaust klappa saman lófum.

Ed Gein er einn af frægustu morðingjum Bandaríkjanna og hefur saga hans verið innblástur að mörgum sígildum hryllingsmyndum. Saga hans var fyrst fengin að láni í „Psycho“ (1960) en var útfærð á enn svæsnari hátt í „The Texas Chain Saw Massacre“ (1974). Í þessum myndum var þó drepið á þeim þáttum í sögu Gein sem heilluðu kvikmyndagerðarmennina hvað mest. Árið 1974, fáeinum mánuðum áður en Leatherface hrelldi kvikmyndahúsagesti, kom þó út „Deranged“ en sú mynd þykir koma sögu Gein best til skila.

Ed gein 1

Saga Gein í stuttu máli

Gein ólst upp á býli í Wisconsin fylki ásamt föður sínum, móður og eldri bróður. Gein var harðlega stjórnað af móður sinni sem ítrekað beitti hann ofbeldi og refsaði fyrir tilraunir til að eignast vini. Samtímafólk lýsti honum sem „inni í sér“ og nefndi það sérstaklega tilhneigingu hjá honum að hlæja skyndilega upphátt jafnvel þó enginn væri nærri honum. Faðir hans lést þegar Gein var rúmlega þrítugur og nokkrum árum seinna lést bróðir hans en talið er að mögulega hafi Gein átt þátt í því. Það var þó ekki fyrr en mamma Geins lést að veröld hans hrundi alveg. Hann gróf upp lík móður sinnar og sinnti því eins vel og hann gat. Hann hóf að grafa upp fleiri lík, sum þeirra í ferskari kantinum svo hann gæti lagfært skinn móður sinnar og fríkkað hana aðeins. Hann taldi móður sína einnig vanta félagsskap. Úr skinnum og beinum líkanna bjó hann til alls kyns hluti sem skreyttu heimilið („Skinntrommur, skinnstólar, skinnruslatunnur“ o.s.frv.) og hauskúpur og bein voru út um allt. Vitað er að Gein drap tvær manneskjur en hann var staðinn að verki á býli sínu þegar hann var í miðju verki að rista fórnarlamb sitt sem hékk öfugt á krók í skúr hjá honum.

Psycho, Texas Chain Saw og Deranged

Rithöfundurinn Robert Bloch skrifaði „Psycho“ sem Alfred Hitchcock leikstýrði árið 1960. Í henni var drepið á móður-áráttu Ed Geins/Norman Bates  (Anthony Perkins). Bates klæddi sig í kvenmannsföt þegar hann drap fórnarlömb sín en þau áttu það öll sameiginlegt að mamma Norman kunni ekki við hvernig þau gætu spillt litla drengnum hennar. Vitaskuld var mamma löngu látin og Norman umbreyttist í móður sína þegar vann voðaverkin.

Norman Bates             Leatherface

Tobe Hooper lét sig frekar varða líkstuld og skinn áráttu Geins þegar hann bjó til Leatherface og vitfirrtu mannætufjölskyldu hans í „The Texas Chain Saw Massacre“. Gein bjó til svokallaða „skinnbúninga“ sem hann klæddist sem og andlitsgrímu en ekki er vitað fyrir víst að hann hafi gætt sér á mannakjöti.

Í „Deranged“ er saga Ed Gein hvað nákvæmust. Ezra Cobb (Roberts Blossom) grefur upp lík móður sinnar og fljótlega fer hann að grafa upp fleiri til að halda henni félagsskap. Hann býr til líkamsbúninga og alls kyns muni sem hann notar til að skreyta heimilið. Hann myrðir þrjár konur og er staðinn að verki þegar kunningjar hans koma að líki þeirrar síðustu hangandi upp á krók í skúrnum á býlinu.

Deranged 1

Það er skemmtilegt að hafa í huga og bera saman morðingja sem eru hreinn skáldskapur og þá sem eiga rætur að rekja í raunveruleikann. Ezra Cobb er í öllum skilningi hreinn manngarmur sem veit ekki í hvorn fótinn á að stíga eftir að móðir hans deyr. Einmanaleikinn yfirbugar hann að lokum og félagsskapur mömmu gömlu gefur honum tilgang og fjöldann allan af framtíðar markmiðum. Það flækist ekki mikið fyrir honum vitið þegar hann segir kunningjum og öðrum frá því hvað honum þykir merkilegt að geta fræðst um í dagblaðinu hver var að látast og hvar hann verði grafinn. Sama er uppi á teningnum þegar hann segir sama kunningja að týnd kona sé í raun heima hjá honum bara til þess eins og hann hafi ekki áhyggjur af henni. Þessi svarti húmor léttir svo sannarlega andrúmsloftið í „Deranged“ en hann er ekki fjarri skalfestum heimildum um Gein. Gein lét uppi alls kyns yfirlýsingar sem fengu á sig aðra mynd eftir að verknaðir hans uppgötvuðust og hann ku víst hafa sýnt börnum sem gengu fram hjá býli hans munina sem hann bjó til úr skinnum og beinum af fólki. Upp til hópa leit fólk á Gein sem sérvitran einstæðing sem var sauðameinlaus.

Deranged 2

Ezra Cobb er ekki í sama klassa og Hannibal Lecter eða John Doe í „Se7en“; svo mikið er víst. Það er ekki fjarri því að maður hreinlega öfundi Hannibal af gáfum hans, fatasmekk, orðhnyttni og veraldlegum auði. Maður væri að vísu til í að vera laus við bragðlaukana og persónulegu hneigðir hans en að öðru leyti er hann ansi gott eintak. Sama með John Doe; allir upplifum við okkur á einhverjum tímapunkti sem utanveltu en mikið væri gaman að búa yfir þolinmæði hans, staðfestu og flókna en snjalla huga. Verst bara hvernig hann nýtir gáfur sínar og beinskeytni. En Ezra Cobb; lítið sem ekkert sem heillar þar. Félagsfælinn og takmarkaðar gáfur. Ósjálfstæður með móðuráráttu á hæsta stigi. Gersamlega grunlaus um verknaðina sem hann fremur og ónæmur á hryllinginn og sorgina sem hann er valdur af.

Eitthvað segir manni að Ezra Cobb sé líkari flestum þeim manngörmum sem vinna voðaverk.

Deranged-Bluray

Þess má geta að „Deranged“ er til í flottri viðhafnarútgáfu á Blu-ray frá breska útgáfufyrirtækinu Arrow Video.