Sarah Palin mynd frumsýnd í Bandaríkjunum í dag

Í dag verður frumsýnd í Bandaríkjunum ný heimildamynd sem fjallar um stjórnmálaferil fyrrum varaforsetaefnis repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, Söruh Palin. Myndin verður sýnd í nokkrum kvikmyndahúsum.
Palin er mikið í umræðunni vestra, og miklar vangaveltur eru um hvort hún hyggist bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna á móti Barrack Obama í kosningunum á næsta ári.
Myndin heitir The Undefeated, og er leikstýrt af Stephen Bannon. Í myndinni er brugðið upp mynd af Palin í gegnum viðtöl við aðdáendur hennar og stuðningsmenn, að því er segir í frétt frá AFP fréttastofunni.
Leikstjórinn, Bannon, er íhaldsmaður sem er yfirlýstur aðdáandi Palin. Hann fjármagnaði myndina sjálfur, en hún kostaði eina milljón Bandaríkjadali í framleiðslu.

„Myndin er ákall um að framboðsherferð eins og árið 1976: Reagan vs. the establishment,“ sagði Bannon nýlega í samtali á vefsíðunni Real Clear Politics.

Í myndinni fylgjast áhorfendur með Palin þegar hún var borgarstjóri og síðar ríkisstjóri í Alaska, og fram að því þegar hún varð varaforsetaefni John McCain í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum.
Engin viðtöl voru tekin beint við Palin fyrir myndina, en hún talar inn á nokkur atriði í myndinni.

The Hollywood Reporter lýsir fyrstu mínútum myndarinnar á þann veg að þar séu klipptir saman bútar þar sem kvikmyndastjörnur eins og Matt Damon, Madonna og David Letterman móðga eða gera lítið úr Palin.

Myndin verður frumsýnd 10-15 bíóhúsum í Texas, Florida og Arizona, en ekki í Los Angeles, New York eða Alaska.