Meryl Streep er sólgin í fleiri óskarsverðlaun og verður erfiðara með ári hverju að veðja uppá hvort hún hreppi verðlaunin þar sem hún hefur verið tilnefnd 14 sinnum og einungis tvisvar hreppt hnossið. Nú setur hún sig í enn eitt hlutverkið sem hún hefur klárlega verið fædd til að leika; Járnfrúin Margret Thatcher. Flestir vita hver sú sögulega persóna er, en þeir sem sjá fyrir sér kvenkyns útgáfuna af Iron Man eru klárlega á villigötum. Margret Thatcher var fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Breta og átti stóran þátt Falklandsstríðinu- hún var á þeim tíma einn dáðasti og hataðasti stjórnmálamaður lands síns.
Stiklan er… sérstök. Það er ansi súrealsíkt að heyra lagið „Our house“ í stiklu fyrir dramatíska óskarsbeitu. Meryl Streep er að sjálfsögðu frábær og tekst ávallt að eigna sér hlutverkið og senurnar sem hún er í og er auðvelt að sjá óskarsglampann í augunum hennar. Þetta er einnig önnur mynd ársins sem virðist nýta sér „Dutch-angle“ í kvikmyndatökunni(hin var Thor), ætli við séum búin að jafna okkur á ofnotkun tækninnar í hinni ógleymanlega lélegu Battlefield Earth.
Myndin virðist vel samsett og inniheldur glæsilega kvikmyndatöku, en er þessi mynd virkilega eitthvað meira en óskarsbeita og er ég nokkuð sá eini sem langar nú virkilega að sjá Meryl Streep í fljúgandi járnklæðum ásamt Tony Stark?