Sérstök forsýning á Peninsula – Frímiðar í boði

Á miðvikudaginn, þann 29. júlí kl. 20:00 í Laugarásbíói, verður Kvikmyndir.is með sérstaka forsýningu á uppvakningatryllinum Peninsula. Sýningin verður í AXL sal Laugarásbíós og með íslenskum texta.

Óhætt er að segja að margir hrollvekju- og uppvakningaaðdáendur hafa beðið eftir þessari með mikilli eftirvæntingu. Um að ræða sjálfstætt framhald gæðatryllisins Train to Busan, einnar tekjuhæstu kvikmynda Suður-Kóreu frá upphafi sem hefur frá útgáfu verið talin meðal betri uppvakningamynda síðari ára.

Peninsula gerist fjórum árum eftir að uppvakningafaraldurinn hófst í Suður-Kóreu og hefur að mestu útrýmt íbúum landsins. Hópur sérsveitarmanna leggur í krefjandi sendiför til stórhættulegra óbyggða Kóreuskaga þar sem uppvakningar leynast við hvert fótmál. Sérsveitarhópinn leiðir Jung-seok, sem er hættusvæðunum vel kunnugur, en í miðri för mætir hann ýmsum eftirlifendum í slæmu ásigkomulagi. Verður þá tímaspursmál hvort hópurinn nái að standa saman gegn sameiginlegu ógninni eða illt verði gert verra.

Train to Busan er á meðal tekjuhæstu mynda Suður-Kóreu frá upphafi. Hún hlaut frábærar viðtökur frá bæði áhorfendum og gagnrýnendum víða um heim og hefur frá útgáfu verið talin meðal betri uppvakningamynda síðari ára.



Það verða ekki seldir miðar á þessa forsýningu en ef þú hefur áhuga á miðum (fyrir tvo) eru eftirfarandi leikir í boði:

  1. Hægt er að senda póst á netfangið tommi@kvikmyndir.is með yfirskriftinni Peninsula og svari við eftirfarandi spurningu:

Hver er þinn uppáhalds kvikmyndaleikstjóri sem er ekki kenndur við Hollywood?

  1. Þú getur tekið þátt í komment-leik á Facebook-síðu Kvikmyndir.is og taggað þann einstakling sem þú myndir vilja bjóða á forsýninguna.

Eða…

  1. Verið með í umræðuþræði Facebook-hópsins Bíófíklar, en þar er spurt: Hver er þín uppáhalds kvikmynd frá Suður-Kóreu?

Nóg er til af miðum að svo stöddu og verður haft samband við vinningshafa/bíógesti reglulega fram yfir helgina framundan. Nöfnin fara beint á nafnalista sem aðgengilegur verður í anddyri Laugarásbíós rétt fyrir sýningu.

Hér að neðan er sýnishorn úr Peninsula.

Sjáumst í bíó