Mamma Mia og Les Miserables leikkonan Amanda Seyfried er nýjasta viðbótin í gaman-dramað While We´re Young, en áður voru Ben Stiller, Naomi Watts og Adam Driver, búin að staðfesta þátttöku í myndinni. Leikstjóri verður Noah Baumbach.
Myndin fjallar um hjón á fimmtugsaldri, stífan heimildamyndagerðarmann og konu hans, sem Stiller og Watts leika, sem kynnast ungu og frjálslyndu pari, sem Seyfried og Driver leika. Líf eldri hjónanna fer úr skorðum þegar þau kynnast unga parinu.
Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og aðrir leikarar voru orðaðir við myndina á öðrum tímapunkti í undirbúningsferlinu, leikarar eins og James Franco, Jesse Eisenberg og Greta Gerwig.
Seyfried lék nú síðast í The Big Wedding ásamt Robert De Niro og Diane Keaton, og nú um helgina var teiknimyndin Epic frumsýnd í Bandaríkjunum, en Seyfried talar fyrir eina persónu myndarinnar. Það styttist síðan í frumsýningu á hinni ævisögulegu mynd Lovelace, um Deep Throat klámdrottninguna Linda Lovelace, en Seyfried leikur aðalhlutverkið, Lovelace sjálfa.
Þessa dagana er Seyfried að vinna við gaman-vestrann A Million Ways to Die in the West, eftir Seth MacFarlane.