Ef maður er myrtur í bíómynd, þýðir það ekkert endilega að maður geti ekki leikið persónuna aftur sem var drepin, í framhaldsmynd. Það á til dæmis við um leikarann Martin Sheen, en hann hefur verið kallaður til leiks í The Amazing Spider-Man 2, en eins og þeir sem sáu fyrri myndina muna, var hann myrtur þar með byssuskoti.
Upptökur á myndinni hefjast í febrúar, samkvæmt frétt ComingSoon vefsíðunnar. Leikstjóri er Mark Webb.
Martin Sheen sagði í þætti David Letterman, The Late Show, að hann myndi mæta aftur í Spider-Man: „Nú, þeir kölluðu í mig aftur. Ég veit ekki hvert hlutverk mitt verður nákvæmlega, en ég mun verða Ben frændi aftur í Spider-Man á næsta ári.“
Nú er spurning hvernig Ben mun birtast í nýju myndinni. Að öllum líkindum verður það í formi endurlita aftur í tímann eða í einhversskonar draumasenum þar sem Peter Parker, öðru nafni Spider-Man, rifjar upp eitthvað gott sem frændinn kenndi honum sem ungum dreng.
Sam Raimi, leikstjóri fyrri Spider-Man þríleiksins, lék sama leikinn í sínum myndum, þ.e. hann hafði Ben með í öllum þremur myndunum, en Cliff Robertsson lék frændann í þeim myndum.
Ásamt Sheen og Andrew Garfield, sem leikur Spider-Man sjálfan, þá leika í myndinni þau Emma Stone, Shailene Woodley, Dane DeHaan, Sally Field og Jamie Foxx, en Foxx kemur til með að leika þorparann Electro.