Shrek hættur við að hætta

Í framhaldi af yfirtöku NBC Universal á Dreamworks Animation kvikmyndafyrirtækinu, þá hefur verið tilkynnt að von sé á fimmtu teiknimyndinni um græna risann viðkunnalega, Shrek, Shrek 5, árið 2019.  Jafnframt er von á teiknimyndinni Shadows, eftir Edgar Wright og David Walliams.

shrek

Yfirlýsingin kemur mörgum aðdáendum Shrek seríunnar á óvart, þar sem síðasta mynd, Shrek Forever After, frá árinu 2010, sem einnig var kölluð Shrek: The Final Chapter, eða Shrek: Lokakaflinn, átti að marka endalok seríunnar. Gleði og hamingja ríkti í lok myndar, og allir gátu unað glaðir við sitt.

Gagnrýnendur voru ekki eins hrifnir af síðustu tveimur myndum, og myndunum tveimur þar á undan, en þrátt fyrir það þá fengu þær góða aðsókn, og því ætti að vera óhætt að leggja af stað í gerð þeirrar fimmtu.

Auk Shrek myndanna sjálfra þá hafa komið út ýmsar hliðarmyndir eins og Shrek the Halls árið 2007, Scared Shrekless árið 2010 og Puss in Boots, sem var forsaga Shrek myndanna, þar sem sögð var saga stígvélaða kattarins áður en hann hitti Shrek og Asna.

Ekkert er enn vitað um söguþráð Shrek 5.