Kevin Smith, sem leggur leið sína til Íslands í nóvember næstkomandi, hefur farið hátt með að hann ætli sér að draga sig úr kvikmyndaiðnaðinum. Smith, sem heldur nú uppi internet-útvarpsstöðinni Smodcast internet Radio, leikstýrði síðast draumaverkefni sínu Red State. Smith fjármagnaði og dreifði myndinni sjálfur og ætlar hann sér að gera slíkt hið sama með næstu mynd sína Hit Somebody, sem verður jafnframt hans síðasta verk.
Hit Somebody er byggð á samnefndu lagi og fjallar um ungan hokkíspilara. Nýlega lýsti Smith því yfir að hann ætlaði sér að gefa myndina út í tveimur hlutum, við mikinn fögnuð aðdáenda sinna. Með aðalhlutverkið í Hit Somebody fer hinn ungi Nicholas Braun, sem fer sömuleiðis með eitt aðalhlutverkið í Red State.