Förðunarmeistarinn Stuart Freeborn, sem þekktastur er fyrir að hafa gert brúðurnar Yoda, Jabba the Hut og Chewbacca ( Loðinn ) í Star Wars myndunum, er látinn 98 ára að aldri.
Leikstjóri Star Wars, George Lucas, sagði í yfirlýsingu að Freeborn hafi verið orðinn goðsögn í förðunarheiminum þegar hann fékk hann til að vinna fyrir sig að Star Wars.
„Hann kom með áratuga langa reynslu og endalausan sköpunarkraft,“ sagði Lucas.
„Listfengi hans og fagmennska mun lifa áfram í persónunum sem hann bjó til. Star Wars verurnar verða líklega túlkaðar á ný í framtíðinni en þær munu alltaf í hjarta sínu vera þær sem Stuart bjó til í upphafi.“
Barnabarn Freeborn, Michelle Freeborn, segir að afi sinn hafi dáið á þriðjudaginn sl. í London sökum elli. Hún segir að afi sinn hafi verið hetja í sínum augum og hafi verið henni og föður hennar innblástur til að starfa í kvikmyndaheiminum einnig.
Freeborn starfaði í kvikmyndaiðnaðinum í sex áratugi, og kom meðal annars að myndum eins og Stanley Kubrick myndinni 2001: A Space Odyssey.
Freeborn lætur eftir sig auk Michelle Freeborn, sjö önnur barnabörn og nokkur barna barnabörn.
Eiginkona hans Kay, og þrír synir þeirra, Roger, Ray og Graham, eru öll látin.
Hægt er að lesa ítarlegri grein um ævi og störf Freeborn með því að smella hér.