Skemmtilegustu sérviðburðirnir á RIFF

RIFF býður upp á miklu meira en bara gífurlegt úrval af ferskum kvikmyndum frá öllum heimshornum. Á hátíðinni er boðið upp á fjöldann allan af skemmtilegum sérviðburðum, sem henta bæði harðasta kvikmyndaáhugafólki og þeim sem langar bara að lyfta sér aðeins upp. Rennum yfir þá helstu! Athugið að hátíðarpassar gilda aðeins á hefðbundnar bíósýningar hátíðarinnar, þannig að á flesta þessa viðburði er miðaverð óháð þeim.

Comic Con Búningasýning
28. september kl. 20.00, BíóParadís. Almennt miðaverð, passi ætti að gilda.

Heimildamyndin Comic-Con Episode IV: A Fan’s Hope eftir Morgan Spurlock verður sýnd í samstarfi við Nexus, og eru allir hvattir til að mæta í búningum, eins og við höfum greint frá. Það næsta sem þú munt komast því að upplifa ComicCon á Íslandi í bráð… Partý verður á efri hæð Sólon kl. 22.00 eftirá, en þar er 20 ára aldurstakmark inn líkt og almennt gildir á vínveitingastöðum.

 

 

Sundbíó
29. september kl. 20.00, Laugardalslaug. Verð 1.200 kr.

Sundbíóið er orðið eitt merkilegasta kennileiti RIFF, og í þetta skiptið verður hin frábæra Back to the Future sýnd. Gott tækifæri til að sjá Enchantment Under the Sea dansleikinn í nýjum kringumstæðum. Skreytingar verða í anda ársins 1955 munu og tónlist tímabilsins mun „svífa yfir vötnum“ eins og kynningarbæklingurinn lofar.

Sjónrænir tónleikar
29. september kl. 21.00, Kaldalón í Hörpu. Verð 1.990 kr.

Eitthvað fyrir þá sem vilja tilbreytingu frá bíómyndum. Kira Kira fagnar útgáfu plötunnar Feathermagnetik. Sýndar verða „animasjónir“ eftir Söru Gunnarsdóttir við. Skipulagt af Kimi Records, miðasala á midi.is

Bíó hjá Hrafni Gunnlaugssyni
30. september kl. 21.00, Laugarnestangi 65. Verð 1.500 kr.

Einstakt tækifæri til þess að sjá eina helstu költ-perlu íslendinga, Hrafninn Flýgur i þröngum félagsskap með leikstjóra myndarinnar. Skoðunarferð um einstakt hús hans gæti jafnvel fylgt með. Kíkið á skemmtilega heimasíðu kappans, sem er upplifun út af fyrir sig, til þess að hita upp. Mjög takmarkaður sætafjöldi!

Hjólreiðatúr um tökustaði í Reykjavík
2. október kl. 17:30-19:30, Ægisgarði 7. Verð 3.000 án hjóls, 4.500 með hjóli.

Hjólað verður með leiðsögn að tökustöðum margra frægustu kvikmynda Íslandssögunnar, á borð við Börn Náttúrunnar, Djöflaeyjuna, Engla Alheimsins, Bjarnfreðarson og Mýrina. Innifalið í verðinu er kort af tökustöðunum, og inneign á icelandiccinema.com. Endar hjólatúrinn svo á Kaffibarnum, þar sem kvikmyndin 101 Reykjavík verður sýnd kl. 22.00, en hún gerist að miklu leyti þar.

Metropolis tónleikar með Damo Suzuki
3. október kl. 20.00, Gamlabíó (Ingólfsstræti 2A).Verð 2.900

Meistaraverk Fritz Lang, Metropolis, frá 1927, verður sýnt ásamt lifandi tónlist eftir Damo Suzuki úr þýsku sýrurokksveitinni CAN. Einstakt tækifæri til þess að sjá eitt af meistaraverkum þögla tímans á hvíta tjaldinu. Eftir á verður tónlist og drykkir í þýskum stíl á Sólon.

Þar hafið þið það! Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi yfir viðburðina á RIFF. Ónefnd eru fjöldi pallborðsumræðna, Q&A sýningar þar sem aðstandendur svara spurningum eftir kvikmyndina, og margt fleira. Kíkið á dagskránna eða RIFF appið fyrir frekari upplýsingar. Hvað ætlið þið að sjá?

 

Stikk: