Sænski leikstjórinn Maximillian Hult segist vera dálítið taugaóstyrkur yfir því að leikstýra íslenskum leikurum í nýrri rómantískri dramamynd sinni Pity the Lovers, þegar hann skilur ekkert hvað þeir eru að segja. „Ég verð að viðurkenna að ég er smá órólegur yfir því að leikstýra íslenskum leikurum á tungumáli sem ég tala ekki sjálfur. En þessar áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar allir voru komnir á sinn stað, og við hófum tökur,“ segir leikstjórinn í frétt frá sænskum framleiðanda myndarinnar, LittleBig Productions.
Leikstjórinn Maximilian Hult lengst til hægri, ásamt Áslaugu Konráðsdóttur standandi lengst til vinstri, og leikurunum Jóel I Sæmundssyni, Þóru Karítas Árnadóttur og Björn Thórs. Ljósmynd: Sigga Ella.
Hult var tilnefndur til tveggja Edduverðlauna fyrir síðustu kvikmynd sína HEMMA. Sú mynd gerðist í Svíþjóð og var með sænskum leikurum, en var tekin upp á Íslandi.
Tökur á Pity the Lovers standa nú yfir í Reykjavík. Handrit er einnig eftir Hult, en myndin segir sögu tveggja bræðra sem eru dálítið á skjön við umhverfið. Sagt er frá þrá þeirra eftir ást og tilraunum þeirra til að lifa eðlilegu lífi.
Tökur myndarinnar hófust 24. ágúst sl. og stefnt er að frumsýningu á næsta ári.
Myndin er alfarið tekin upp á íslensku og helstu leikarar eru Björn Thórs, Jóel I Sæmundsson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Sigurður Karlsson, Edda Björgvinsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Hafdís Helga Helgadóttir.
„Upphaflega átti að taka myndina upp í Svíþjóð, en við stóðum frammi fyrir því að fresta tökum um heilt ár, þegar við biðum eftir því að klára fjármögnun í Svíþjóð, þá ákváðum við að fara til Íslands, og brúa bilið í fjármögnuninni með 25% endurgreiðslukerfinu sem hér er við lýði,“ segir framleiðandinn Anna G Magnúsdóttir í fréttinni.
Opinber söguþráður myndarinnar er á þá leið að bræðurnir Óskar ( Björn Thors ) og Maggi ( Jóel Sæmundsson ) eru báðir rólegir í tíðinni, en eiga erfitt með náin sambönd, en þeir fást við þetta vandamál hvor á sinn hátt. Óskar reynir að forðast tilfinningaleg tengsl, en Maggi fer í hvert sambandið á fætur öðru. Fjarlægur faðir þeirra á í svipuðum vandamálum, en hefur á einhvern ótrúlegan hátt náð að hanga í sambandi með Guðrúnu, sem Edda Björgvinsdóttir leikur, en hann hitti hana eftir að fyrri eiginkona hans, barnsmóðir hans, lést þegar drengirnir voru litlir.
Dýralæknirinn Anna ( Sara Dögg Ásgeirsdóttir ) stendur frammi fyrir mikilvægri ákvörðun, og verður fyrir áhrifum af Óskari. Unga listaspíran Ingibjörg ( Hafdís Helga Helgadóttir ) reynir að vaxa úr grasi eins hratt og hún getur og vinirnir 13 ára þeir Danni T og Danni M, halda áfram að lifa sínu venjulega lífi, og dvelja sífellt meira heima hjá Óskari.