Skjaldbökurnar snúa aftur!

Þeir sem fæddust á níunda áratugnum ættu ómögulega að getað gleymt Teenage Mutant Ninja Turtles-myndunum gömlu. Þær spiluðu a.m.k. stóran þátt í minni æsku.

Reynt var að endurlífga Ninja Turtles-fyrirbærið með tölvuteiknaðri mynd sem kom út árið 2007, en hún stóðst engan veginn væntingar í miðasölum. Nú hefur Scott Mednick, einn framleiðandinn hjá Legendary Pictures (sem einnig framleiðir hina væntanlegu Where the Wild Things Are) ákveðið að gera tilraun að öðru „reboot-i,“ en í þetta sinn er ætlunin að nota helst gömlu góðu sveittu búningana í stað pixla.

Mednick vill samt prufa að nota svokallað „face replacement technology,“ þar sem andlitin verða sett inn eftirá í gegnum tölvu til að gefa skjaldbökunum sveigjanlegri svipbrigði. Aðdáendur gömlu Turtles-myndanna (*hönd) ættu að muna að andlitin voru fjarstýrð með misvel heppnuðum árangri. Raddirnar pössuðu sjaldan við munnhreyfingarnar.

Annars er ekkert vitað um leikstjóra eða jafnvel leikara sem taka þátt í myndinni, en búið er að ákveða að myndin komi út árið 2011.