Skrímsli í skóla slá í gegn

Teiknimyndin Monsters University var best sótta myndin í bandarískum bíóhúsum nú um helgina en samkvæmt bráðabirgðatölum þá þénaði myndin 82 milljónir Bandaríkjadala, sem þýðir að myndin er önnur mest sótta myndin frá Pixar fyrirtækinu á frumsýningarhelgi frá upphafi, en einungis Toy Story 3 fékk meiri aðsókn á frumsýningarhelgi, eða 110,3 milljónir dala.

Monsters mike

Myndin fjallar um þá Mike, sem Billy Crystal leikur, og Sulley, sem John Goodman leikur, og þeirra fyrstu kynni og hvernig þeir leystu úr ágreiningsefnum og urðu síðan bestu vinir.

Fyrri myndin, Monsters Inc., var frumsýnd 2. nóvember 2001 og þénaði 62,5 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni. Alls þénaði sú mynd 289,9 milljónir dala og utan Bandaríkjanna þénaði hún 272,9 milljónir dala. Myndin var tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna, fyrir bestu teiknimynd, bestu tónlist, bestu klippingu og besta lag í kvikmynd, „If I Didn´t Have You,“ en lagið vann Óskarsverðlaunin.

Monsters University verður frumsýnd 17. júlí nk. á Íslandi.

Önnur aðsóknarmesta mynd helgarinnar var Brad Pitt myndin, uppvakningatryllirinn World War Z, en hún gekk mun betur en aðstandendur höfðu þorað að vona, en búist er við að tekjur myndarinnar yfir helgina nái 66 milljónum dala.

WorldWarZfilming

World War Z verður frumsýnd 10. júlí nk.

Paramount kvikmyndafyrirtækið sagði í fréttatilkynningu að myndin væri aðsóknarmesta Brad Pitt myndin á frumsýningarhelgi frá upphafi, sem er reyndar ekki alveg hárnákvæmt þegar tekjur Mr. And Mrs. Smith frá árinu 2005 eru leiðréttar fyrir verðbólgu, en hún þénaði 50,3 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni.

Hér eru tíu aðsóknarmestu myndir í Bandaríkjunum um helgina samkvæmt bráðabirgðatölum:

1. Monsters University

2. World War Z

3. Man Of Steel

4. This Is The End 

5. Now You See Me

6. Fast & Furious 6

7. The Purge

8. The Internship

9. Star Trek Into Darkness 

10. Iron Man 3