Smárabíó: Forskot á sæluna

Eins og flestir vita mun nýtt kvikmyndahús, sem er hluti af verslunarmiðstöðinni Smáralind, opna núna á miðvikudaginn. Okkar menn hjá Skífunni buðu okkur til blaðamannafundar í gær þar sem hulunni var lyft af þessu nýja bíói, sem heitir Smárabíó. Ég ætla hér að deila með ykkur því helsta sem bar þar fyrir augu.

Smárabíó mun hafa fimm misstóra sali, sá stærsti tekur 400 manns í sæti og sá minnsti 120. Allt húsnæðið var hannað sérstaklega með þægindi gesta í huga og sést það greinilega á því hvernig sætum er komið fyrir í sölunum, en bilið milli sæta og fótaplássið í öllum sölunum er með því allra mesta sem sést hefur í almennum sölum hér á landi hingað til. Öll sæti eru hallanleg og einnig eru sætin í stærstu tveimur sölunum svokölluð lovers seats, en hægt er að lyfta upp arminum á milli sætana sem ætti að koma vel að gagni hjá þeim sem vilja eyða rómantískri kvöldstund fyrir framan hvíta tjaldið. Tæknilega séð eru salirnir líka einstaklega vel búnir, sýningartjöldin ná frá veggi til veggjar og allir salir hafa SDDS og Dolby Digital EX hljóðkerfi. Einn af þessum fimm sölum er sérstakur VIP salur, en í honum eru Lazyboy hægindastólar með öllum tilheyrandi búnaði ásamt því sem fólk mun eiga þess kost að versla sér bjór og léttvín. Dyravörður verður í salnum til þess að tryggja að allt fari vel fram.
Við fengum að sjá 15 mínútna kafla úr myndinni Final Fantasy í einum af sölunum og ekki er hægt að segja annað en að bíóið standi fyllilega undir væntingum. Iðnaðarmenn verða væntanlega vinnandi allan sólarhringinn í Smáralind næstu daga þar sem enn er töluvert óklárað, en bíóið mun (ásamt verslunarmiðstöðinni) opna á miðvikudaginn. Þess má geta að ein af opnunarmyndum Smárabíós verður Moulin Rouge.