Söguþráður The Expendables 3 – Tökur hafnar í Búlgaríu!

Tökur eru hafnar í Búlgaríu á spennumyndinni The Expendables 3, en undanfarnar vikur og mánuði höfum við sagt hér fréttir af ráðningu leikara í myndina ofl.

ComingSoon.net birti á vef sínum myndir af tökustað sem má sjá hér, en á myndunum sést eitthvað af þeim vopnabúnaði sem notaður verður í myndinni sem leikstýrt er af Patrick Hughes.

the-expendables-2-movie-image

Lionsgate og Millenium framleiðslufyrirtækin segja í tilkynningu að í The Expendables 3 mæti aftur til leiks þeir Sylvester Stallone, Jason Statham, Jet Li, Dolph Lundgren, Randy Couture, Terry Crews og Arnold Schwarzenegger en einnig bætist nýliðarnir Wesley Snipes, Antonio Banderas, Mel Gibson og Harrison Ford við leikaraliðið. sem og Kellan Lutz,  Ronda Rousey meistari í blönduðum bardagalistum og veltivigtarboxarinn Victor Ortiz og Glen Powell.

Handritið skrifa þau Creighton Rothenberger og hin íslenska Katrin Benedikt, sem unnu saman að Olympus Has Fallen, ásamt Sylvester Stallone.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 15. ágúst 2014.

Söguþráður: 

Í The Expendables 3 þá eiga þeir Barney (Stallone), Christmas (Statham) og afgangurinn af liðinu í höggi við Conrad Stonebanks (Gibson), en hann stofnaði The Expendables liðið ásamt Barney mörgum árum fyrr.  Stonebanks varð síðar miskunnarlaus vopnasali og Barney var á endanum neyddur til að drepa hann … eða það hélt hann amk.

Stonebanks sem nú hefur komist undan því að deyja einu sinni, ætlar nú að gereyða The Expendables liðinu – en Barney er ekki tilbúinn að láta það gerast. Barney ákveður að hann verði að láta sverfa til stáls og finna nýtt blóð til að slást við gamalt blóð. Hann ræður til sín einstaklinga sem eru yngri, fljótari og tæknisinnaðri. Þessi síðasta aðgerð The Expendables verður slagur á milli hins sígilda gegn hinu hátæknilega, í persónulegustu átökum The Expendables til þessa.

Fyrstu tvær The Expendables myndirnar hafa samanlagt þénað um 600 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu.