Þó kvikmyndin The Wolf of Wall Street sé um græðgi og spillingu þá fékk leikarinn Jonah Hill sögulega lág laun fyrir hlutverk sitt í myndinni. Hill fékk tæpar sjö milljónir króna í sinn hlut og ættu það að þykja góð laun fyrir 7 mánaða vinnu. Í Hollywood þykir það þó vera skítur á priki. Til dæmis fær meðleikari hans Leonardo DiCaprio, rúma 2 milljarða króna fyrir nýjustu hlutverk sín.
Leikarinn sagði í viðtali við Howard Stern á dögunum að hann hafi þegið þessi „lágu“ laun því honum langaði svo gríðarlega mikið í hlutverkið. Leikstjórinn Martin Scorsese sé uppáhaldið hans og hann hafi alltaf dreymt um að vinna með honum. Hill var svo hræddur um að framleiðendur myndarinnar myndu hætta við að fá hann í myndina að hann þáði minni laun og skrifaði undir samninginn eins fljótt og hann gat.
Peningarnir eru því ekki allt og Hill gæti ekki verið ánægðari að hafa unnið með Scorsese og uppskar tilnefningu til Óskarsverðlauna á dögunum.
„Ég er í sjokki, ég bjóst svo ekki við þessu. Ég bara trúi þessu varla og því var ég ekki búinn að undirbúa neinn fögnuð því ég var ekki að búast við því að verða tilnefndur. Í alvöru talað,“ sagði Hill við Stern þegar sá síðarnefndi spurði um tilnefninguna.