Sony hættir við Spider-Man 4!

Já, þið lásuð rétt, enda nokkuð sjokkerandi fréttir þótt það sé erfitt að segja að þetta komi á óvart. 


Framleiðendur Sony Pictures höfðu lent í miklum deilum við leikstjórann Sam Raimi (enn og aftur) og gekk illa að komast að sameiginlegri niðurstöðu með Spider-Man 4. Raimi var ekki sáttur með þær hugmyndir sem framleiðendur vildu þróa. Framleiðslan hefur verið í algjöru rugli síðan hún fór af stað, þannig að þeir hjá Sony tóku þá ákvörðun að hætta bara við fjórðu myndina… og koma með „reboot“ mynd í staðinn. Enginn Raimi, enginn Tobey Maguire. Allt nýtt.


Raimi virðist þó ekki vera neitt svekktur. Hann heldur því fram að sá sem tekur við af honum eigi eftir að standa sig vel og hann segir einnig að lífsreynslan á bakvið gerð Spidey-myndanna hafi verið ógleymanleg. Maður býst auðvitað ekki við neikvæðum kommentum á þessu stigi. Bara svona upp á gamanið þá minni ég á commentary-rásina hans (ásamt leikurum) á Spider-Man 3 DVD disknum. Þar virkaði hann afar sáttur með allt en síðar staðfesti hann að framleiðslan á þeirri mynd hafi verið erfið og þreytandi.

Allavega, þá finnst mér persónulega að Sony ætti aðeins að leyfa Spidey að hvíla sig og einblína að öðru. Frekar snemmt að koma með glænýja útgáfu, sérstaklega þegar krakkarnir eru ennþá vanir Tobey Maguire í titilhlutverkinu. Spurning hvernig nýja „origin“ sagan verði meðhöndluð. Vona að við sjáum ekki sömu mynd (með nýjum leikurum) og við sáum árið 2002. James Vanderbilt (Zodiac, Basic) sér annars um handritið á nýju myndinni og það má búast við því að frumsýningin verði árið 2012.

Lítum allavega á björtu hliðina. Raimi er frjáls frá framleiðendum sem leyfa honum ekki að spreyta sig eins og hann vill. Kannski hann geri fleiri „litlar“ myndir.

Hvað segið þið?