Ítalska kvikmyndastjarnan og Óskarsverðlaunahafinn Sophia Loren hefur leikið aðalhlutverk í kvikmyndum á hverjum áratug, allt síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Nú er kominn um áratugur frá síðasta aðalhlutverki hennar, en hún er þó hvergi nærri hætt.
Nú hefur hún boðað komu sína aftur á hvíta tjaldið.
Loren, sem er 78 ára gömul, mun leika fyrsta aðalhlutverk í bíómynd í langan tíma, í mynd sem leikstýrt verður af syni hennar Eduardo Ponti. Myndin heitir La voce umana, eða The Human Voice, og er byggð á einleik eftir Jean Cocteau, að því er the Hollywood Reporter greinir frá.
Tökur á myndinni eru áætlaðar í Róm, Napólí og í hafnarborginni Ostia, og munu taka þrjár vikur.
Ponti, sem er fertugur að aldri, var nýlega í sviðsljósinu á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York en þar sýndi hann stuttmynd sína The Night Shift Belongs to the Stars.
Sophia Loren sást síðast bregða fyrir í söngvamyndinni Nine frá árinu 2009 en þar lék hún móður persónu sem Daniel Day-Lewis lék.
Aðalhlutverkið í La voce umana verður það fyrsta síðan hún lék í Peperoni ripieni e pesci in faccia, eða Too Much Romance … It´s Time for Stuffed Peppers, frá árinu 2004, en það var gamanmynd sem leikstýrt var af Lina Wertmueller.
Ponti, sem er sonur Loren og eiginmanns hennar sem nú er látinn, kvikmyndaframleiðandans Carlo Ponti, leikstýrði móður sinni í fyrstu mynd sinni í fullri lengd, myndinni Cuori estrani, eða Between Strangers, frá árinu 2002.