Soul gefin beint út á Disney+

Teiknimyndin Soul verður sú fyrsta frá kvikmyndaverinu Pixar sem frumsýnd verður á Disney+ streyminu. Í tilkynningu frá Bob Chapek, forstjóra Disney, kemur fram að myndin verður gefin út þann 25. desember.

Upphaflega átti að frumsýna myndina í bíó síðastliðið sumar en þá var hún færð til 20. nóvember vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum í útvöldum löndum sem bjóða ekki enn upp á streymisþjónustu Disney.

Soul segir frá tónlistarmanninum Joe Gardner sem stendur í miðri tilvistarkreppu. Hann elskar djass, en er búinn að gefa drauminn um að verða sjálfur djassleikari upp á bátinn. Dag einn dettur hann niður í holræsi og lendir á ævintýralegum stað þar sem hann þarf að hugsa upp á nýtt hvað það raunverulega þýðir að hafa sál.

Með helstu raddhlutverk fara Jamie Foxx, Tina Fey, Daveed Diggs, Phylicia Rashad og Angela Bassett.