Handritshöfundur bíómyndarinnar 300, Michael B Gordon, ku vera að vinna að handriti að endurgerð á myndinni Spartacus eftir Stanley Kubrick, sem á þó að vera raunsærri heldur en mynd Kubricks, sem er frá árinu 1960 og var með Kirk Douglas í aðalhlutverkinu.
Myndin á bæði að byggja á mynd Kubricks og sjónvarpsmyndunum frá 2010, Spartacus: Blood and Sand, að því er Variety kvikmyndablaðið segir frá.
Spartacus var uppi á árunum 109-71 fyrir Krist, og var þræll Rómverja. Hann var þjálfaður sem skylmingaþræll, en sleppur úr þrældómnum og endar með að leiða her 120.000 frelsaðra þræla og skylmingaþræla í þriðja þrælastríðinu ( 73-71 fyrir Krist ) þar sem talið er að hann hafi látist í bardaga.
Hin upprunalega Spartacus eftir Stanley Kubrick hlaut fern Óskarsverðlaun, en myndin er byggð á skáldsögu eftir Howard Fast.