Lengi vel stóð til hjá ofurframleiðandanum og kvikmyndagerðarmanninum James Cameron að gera kvikmynd um Köngulóarmanninn. Þetta var snemma á tíunda áratug síðustu aldar og hefði þá Cameron verið fyrstur manna til að tjalda heilmiklu til og koma ofurhetjunni á stóra skjáinn.
Augljóslega varð þó lítið úr þeim plönum og var það á endanum Evil Dead-leikstjórinn Sam Raimi sem tók við keflinu.
Kvikmyndavefurinn JoBlo hlóð í góða samantekt á framvindu Spider-Man myndarinnar frá Cameron og hvernig hún hefði spilast út. Um er að ræða greinagerð í myndbandsformi (e. video essay) sem ætti að gefa innihaldsríka heildarmynd á þeirri Spider-Man mynd sem aldrei varð að veruleika… þó ýmsar hugmyndir hafi ratað í kvikmyndirnar sem gerðar voru síðar meir. Má þess geta að skúrkarnir Electro og Sandman hefðu skotið upp kollinum í mynd Camerons og var Leonardo DiCaprio lengi orðaður við aðalhlutverkið.
Sjón er sögu ríkari.