Ath! Þeir sem lesa hvaða mynd er tekin til umræðu í þessum fasta lið eru beðnir um að skoða afganginn á þessu innihaldi á eigin ábyrgð. Tilgangurinn með þessu er að benda á sorglega myndefnið sem aðstandendur bíómynda setja stundum framan á DVD/BLU-Ray hulstrin, ómeðvitaðir (eða hvað?) um það að á þeim ríkir gríðarlegur spoiler. Sem sagt, ef þú hefur ekki séð myndina sem er nefnd í fyrirsögninni ertu vinsamlegast beðin/n um að skipta (tímabundið) um síðu, því oft er verið að skemma fyrir góðum myndum.
MYND: WARRIOR (2011)
HVERNIG ER HULSTRIÐ AÐ SKEMMA FYRIR MANNI?
Warrior hafði kannski ekki frumlegustu söguna á árinu og voru ekki margir möguleikar í boði varðandi hvernig myndin ætti eftir að enda. Sýnishornin segja það að tveir bræður lenda í því að berjast um sama titil og í lokasenunum þurfa þeir að lemja vitið úr hvor öðrum. En allir sem sáu myndina spurðu sig að þessu: Hvort mun Tom Hardy eða Joel Edgerton vinna? Það er ekki erfitt að spá þeim sigri en það breytir því samt ekki að myndinni tekst að vera kröftug og spennandi á öllum réttu stöðunum. Ameríska hulstrið virðist ekkert pæla í því að niðurstaðan á lokabardaganum er sýnd í óvenjulega skýrri mynd. Aðeins hinir heiladauðu myndu ekki leggja saman tvo og tvo, sérstaklega ef þeir eru með hulstrið í augsýn á meðan myndin er rúllandi í tækinu.
Í tilfelli myndar eins og Warrior, þar sem klisjur eru við annað hvert horn, þá skiptir ferðin kannski aðeins meira máli heldur en áfangastaðurinn, en aðstandendur myndarinnar mættu nú bera aðeins meiri virðingu fyrir sinni eigin vöru! Með þessu hulstri einu og sér er hugsanlega verið að útrýma nokkuð átakanlegri spennu, og ef myndin væri ekki svona svakalega, svakalega góð, þá myndi ég kalla þetta tilgangslaust áhorf eftir að endinum er nuddað svona upp við andlitið á þér.
Ef þið hafið fleiri tillögur að sambærilegum hulstrum, þá megið þið senda póst á tommi@kvikmyndir.is og kannski koma með ykkar eigin útskýringar á þeim, ef þið viljið.