Stallone á toppnum, hugar að framhaldi

The Expandables, nýjasta mynd Sylvester Stallone, þaut beint á toppinn á bandaríska aðsóknarlistanum nú um helgina, en hún var frumsýnd sl. föstudag, degi áður en kvikmyndir.is forsýndi hana hér á landi, fyrir troðfullu húsi á powersýningu í Laugarásbíói.
Myndin þénaði 35 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni um helgina, en Sylvester Stallone sagði eftir frumsýninguna að myndin væri á meðal þeirra mynda sinna sem hefðu gefið honum hvað mesta ánægju. Þetta var stærsta forsýning á mynd sem Stallone hefur leikstýrt.
Í samtali við Reuters fréttstofuna segir Stallone að myndin hafi verið samstarf margra aðila. „Ég gerði þetta ekki einn. Þetta var hópvinna, og hópurinn hjálpaði til við að ná þessum árangri. Ég segi alltaf að ef þú ert stjarna – jafnvel stjarna sem er farin að dofna – þá slokknar ljósið aldrei alveg. Það þarf bara að skrúfa upp í birtunni á henni,“ sagði Stallone.
Spurður að því hvort að hann sé búinn að skrifa framhald af Expandables segir Stallone að hann sé búinn að skrifa það í huganum. „Ég held að þessi hópur í myndinni þurfi að þróast lengra, ég get ekki notað nákvæmlega sama hópinn aftur. Þannig að það er eitthvað sem ég þarf að hugsa um, hvernig set ég saman næsta hóp, hverjir fara, og hverjir koma. Það er áskorunin.“
Stallone segir að stoltastur sé hann af síðustu Rocky myndinni, Rocky Balboa. „Það að geta klárað þá seríu eftir jafn mörg ár og liðu frá þeirri fyrstu, það var frábært. En þessi nýja [Expandables] toppar þá upplifun hvað varðar spennu. Þetta hefði aldrei átt að gerast. Framleiðandinn Avi Lerner tók áhættu með því að vinna með mér þegar enginn annar vildi það. Ég veit það því ég heyri um það á hverjum degi! En hann hafði miklar áhyggjur af hvað gagnrýnendur myndu segja um myndina. „
Stallone bætir við að fæstar hasarmyndir falli vel í kramið hjá gagnrýnendum. „Ég segi þetta ekki til að gera lítið úr gagnrýnendum, en því meiri átök og því svakalegri sem myndin er, því verr líst gagnrýnendum á hana. Það er mælikvarði sem ég nota. Það, og það hve mikið ég slasa mig við gerð myndarinnar.“
Expandables hefur þó fengið ágætar viðtökur gagnrýnenda. „Ég hélt aldrei að við myndum fara á toppinn um þessa frumsýningarhelgi, enda var samkeppnin talsverð,“ sagði Stallone, þakklátur framleiðendum fyrir samstarfið og áhorfendum fyrir að mæta í fjörið.