Star Wars: Episode VII verður fyrsta bíómyndin sem leikstjórinn J.J. Abrams tekur upp utan Los Angeles í Bandaríkjunum, en í júní sl. var sagt frá því að myndin yrði tekin upp í Pinewood kvikmyndaverinu í Lundúnum í Englandi.
Nú hafa borist af því fregnir að þó að aðaltökur myndarinnar fari fram í London þá muni eftirvinnsla fara fram í Los Angeles, í byggingu framleiðslufyrirtækis Abrams, Bad Robot, í Santa Monica.
Leikstjórinn ku vera að byggja herbergi með grænskjám, hljóðver og annað sem nauðsynlegt er fyrir eftirvinnslu myndarinnar, inni í 1.700 fermetra byggingu Bad Robot. Nú þegar eru í byggingunni klippiaðstaða, leikmunagerð og bíósalur, ásamt skrifstofum J.J. Abrams.
Abrams, sem pungaði sjálfur út sínum eigin persónulegu peningum til að geta tekið Star Trek Into Darkness í Los Angeles, var ekki allskostar ánægður með að þurfa að fara til London til að taka upp Star Wars VII, enda á hann konu og börn í Los Angeles og vill helst ekki dvelja langdvölum í öðru landi, fjarri fjölskyldunni.
Tökur Star Wars VII eru sagðar eiga að hefjast um miðjan janúar 2014, þó ekki sé búið að staðfesta þá tímasetningu.
Myndin verður frumsýnd árið 2015 og er með Harrison Ford, Mark Hamill, Carrie Fisher, Billy Dee Williams og Anthony Daniels í helstu staðfestu hlutverkum.
Michael Arndt skrifar handrit.