Kevin Smith er framleiðandi ofurhetjumyndarinnar Alter Egos sem kemur í bíó vestanhafs í október. Hér er þó ekki um stórmynd að ræða, heldur litla sjálfstæða kvikmynd sem Smith er með fingurna í í gegnum Smodcast Pictures (ég mæli með því að þeir sem hafa ekki hlustað á Smodcast hlaðvarpið geri það hið snarasta).
Í Alter Egos eru ofurhetjur algengar og lifa á styrkjum frá ríkinu. Þegar ríkisstyrkirnir hætta að berast lendir aðalsöguhetjan í tilvistarkreppu og þarf hjálp vina sinna til að losna úr henni. Hinn óþekkti Jordan Galland leikstýrir.
Stiklan er ekki glæný en þar sem ákveðið hefur verið að veita Alter Egos sæmilega víðtæka dreifingu þá gæti verið að hún rati til landsins. Fyrstu dómar fyrir myndina innihalda ekki eintóm lof og ekki hefur verið ákveðið að taka myndina fyrir til sýninga í kvikmyndahúsum hér á landi þannig að líklegast verður að teljast að hún rati beint á DVD hér heima (Blóðhefnd fær bíódreifingu en ekki Alter Egos? ok).