Dagskráin hjá gamanleikaranum Simon Pegg hefur nú aldeilis verið troðfull síðustu árin með ógrynni af stórmyndum, þar á meðal The Adventures of Tintin, Mission: Impossible – Ghost Protocol og Star Trek. Nú hins vegar hefur hann snúið sér aftur að rótum sínum í Bretlandi með hinni óþekktu gamanmynd A Fantastic Fear of Everything, sem fékk sína fyrstu stiklu fyrir stuttu.
Myndin kemur úr smiðju þeirra Crispian Mills og Chris Hopewell, en fyrir utan nokkra þætti er Fantastic Fear fyrsta markverða verkefnið á ferli þeirra beggja. Það þarf þó ekki að vera slæmt, þar sem myndin virðist vera nokkuð grilluð og lítur frekar einstök út.
Hún fjallar um barnabókahöfundinn Jack (Pegg) sem vill skrifa sína fyrstu glæpasögu. Í tilefni þess fer hann að rannsaka ítarlega raðmorðingja frá 19. öldinni í tilraun til að komast inn í hugarfar þeirra. Áætlunin bregst þó og fljótlega hefur myndast hjá honum óstjórnlegur ótti ásamt þvílíku ofsóknarbrjálæði gagnvart umheiminum.
Myndin er væntanleg í júní næstkomandi.
Hvernig líst lesendum svo á A Fantastic Fear? Stórslys sem á eftir að gerast eða leyndur gullmoli?