Harry Styles, söngvari hinnar geysivinsælu strákahljómsveitar One Direction, þarf öryggisgæslu allan sólarhinginn á tökustað nýju Christopher Nolan myndarinnar Dunkirk í Frakklandi.
Myndin fjallar um Operation Dynamo árið 1940, þegar næstum 340 þúsund hermenn bandamanna voru frelsaðir úr sjálfheldu Nasista.
Samkvæmt Glamour tímaritinu þá er Styles nú við tökur stríðsmyndarinnar, og hefur öryggisgæsla við hann verið aukin.
Heimildarmaður segir: „Harry verður að hafa öryggisvörð við hlið sér allan sólarhringinn af því að aðdáendur hafa brotist inn á tökustað til að berja hann augum. Hann er eini leikarinn sem þarf að hafa öryggisvörð allan sólarhringinn, en vörðurinn fylgir honum þegar hann fer heim á kvöldin líka.“
„Aðdáendum hans tókst að komast að því hvar hann heldur til og hafa tjaldað fyrir utan hótelið hans, jafnvel þegar hann er ekki á staðnum. Harry er sá eini með einka-öryggisvörð. Enginn hefur auka starfsfólk nema Kenneth Branagh. Hann er með bílstjóra, en ekkert meira.“