Ný íslensk kvikmynd verður frumsýnd í dag í Bíó paradís, en myndin var að mestu framleidd án styrkja, eins og fram kemur á vef Stockfish kvikmyndahátíðarinnar, en myndin er hluti af dagskrá hátíðarinnar.
Leikstjóri kvikmyndarinnar, sem heitir Taka 5, er leikarinn og tónlistarmaðurinn Magnús Jónsson, en myndin var öll tekin upp á aðeins níu dögum.
Myndin fjallar um ungan bónda sem dreymir um að verða leikari í bíómynd en það vill enginn leika við hann. Fastur í eigin heimi leikur hann senur úr gömlum bíómyndum við sjálfan sig, allan liðslangan daginn. Dag einn ákveður hann að láta draum sinn rætast og rænir 5 listamönnum úr borginni. Leikkonu, rithöfundi, tónlistarmanni, leikstjóra og myndlistarmanni og neyðir þau til að gera bíómynd með sér með gömlu VHS vélinni sinni úti í hlöðu.
Með aðalhlutverk í kvikmyndinni fara Hilmir Jensson, Þóra Karítas Árnadóttir, Halldór Gylfason, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Ólafur Ásgeirsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Kári Hjaltason og leikstjórinn Magnús.
Í samtali við Morgunblaðið núna um helgina viðurkennir Magnús að það hafi verið „dálítið galið“ að láta verða af gerð kvikmyndarinnar, enda er verkefnið kostnaðarsamt. Hann segir í samtalinu að hann hafi viljað prófa að vera ekki öðrum háður og ekki undir þeim þrýstingi að þurfa að klára myndina fyrir ákveðinn tíma.
Myndin var tekin upp í Kollabæ í Fljótshlíð, en í sömu sveit ólst Magnús upp, á Sámsstöðum, sem er örfáum bæjarstæðum frá Kollabæ, að því er segir í Morgunblaðinu. Hann segist þó ekki hafa þekkt þann bæ sérstaklega.
Magnús segist í viðtalinu hafa verið allt í öllu við gerð myndarinnar en Hrund Atladóttir, kærasta hans, hafi séð um myndatöku.
Magnús segir að hann hafi fyrst skrifað kvikmyndina sem hryllingssögu, en hafi síðan fundist þetta vera orðið „svo óhuggulegt allt“. Myndin hafi síðar breyst í svarta kómedíu, og erfitt geti verið að finna línuna á milli hins óhugnanlega og hins spaugilega.