Internetið er framtíðin. Superman er amk. búinn að viðurkenna þá augljósu staðreynd, en í næsta hefti af Superman teiknimyndasögunni segir Clark Kent, hið mannlega sjálf Supermanns, upp vinnunni hjá the Daily Planet og stofnar líklega í framhaldinu óháðan og framsækinn netmiðil, í ætt við Drudge Report, enda er hann mjög ósáttur við það hvernig dagblöðin hafa þróast.
Það er Scott Lobdell, höfundur teiknimyndasögunnar, sem segir þetta í samtali við bandaríska dagblaðið USA Today.
Clark Kent hefur unnið hjá the Daily Planet síðan á fjórða áratug síðustu aldar.
„Superman er klárlega eitt af sterkustu fyrirbærunum á Jörðinni, en hversu lengi getur hann sætt sig við að sitja við skrifborðið og taka við fyrirskipunum frá öðrum,“ spyr Lobdell.
Spurning hvar Superman vinnur í bíómyndinni Man of Steel sem væntanleg er á næsta ári.