Journey 2: The Mysterious Island er aðeins betri en hún lítur út fyrir að vera, en það segir samt ekki neitt. Myndin er nákvæmlega það sem þú heldur og hún gerir litla tilraun til þess að höfða til þeirra sem elska allar myndir eftir Scorsese eða Aronofsky. Ég vissi alveg við hverju ég átti að búast og stillti meira að segja væntingar á mjög raunsæjan hátt með því að gera ráð fyrir aðeins verri mynd heldur en Journey to the Center of the Earth. Aðallega bara vegna þess að framhaldsmyndir sem eru svona áberandi peningaplokk eru eiginlega alltaf verri.
Fyrri myndin var eins og blanda af skemmtitæki sem maður sér t.d. í Disney-World eða Universal og tölvuleik. Markmið myndarinnar var að hoppa á milli eins margra teiknimyndalegra hasarsena og hún gat á 90 mínútum til að virka eins og nokkurs konar brellurússíbani fyrir börn. Söguþráður var orð sem handritið hefði aldrei botnað í, þ.e.a.s. ef handrit hefði verið til staðar. Þetta voru bara hlutir sem gerðust, og öll „sagan“ byggðist í kringum elstu formúlu sem til er: Að koma persónum inn í ævintýraveröld, og síðan koma þeim aftur heim. Svo var stöðugt potað hlutum stöðugt framan í myndavélina til að nýta þriðju víddina. Fólk sem elskar að stúdera bíómyndir hatar fátt meira heldur en sveitta skyndibita eins og þessar Journey-myndir.
Myndirnar eru báðar alveg nákvæmlega eins í hnotskurn, og því eina sem hefur verið skipt út eru brelluumhverfin og meirihluti leikara. Ef Brendan Fraser og Aníta Briem höfðu leikið á móti einungis Josh Hutcherson aftur í þessari hefði örugglega verið hægt að nota sömu bluescreen-tökurnar og í fyrri myndinni, og svo bara sett nýjan bakgrunn eftirá og aðrar skepnur. Journey 2 er samt aðeins (ath. bara AÐEINS) betri heldur en fyrri myndin af nokkrum ástæðum. Sögunni er örlítið betur stillt upp, aðeins að því leyti að mér leið eins og það væri eðlilegur bíómyndastrúktúr að þessu sinni. Auk þess eru leikararnir aðeins skemmtilegri (eins og verður betur útskýrt) og hasarinn fjölbreyttari. Brellurnar eru líka talsvert betri þótt myndin líti augljóslega út eins og teiknimynd. Ég held samt að það hafi verið ætlunin, og í hinni myndinni voru þetta eins og ókláraðar prufubrellur. Hérna eru dýrin og umhverfin betur fínpússuð.
Þessi mynd gaf mér líka mjög sérstaka gjöf, sem er alveg hreint DÝRMÆT sena sem er pottþétt einhver sú steiktasta, bjánalegasta og fyndnasta sem ég mun nokkurn tímann sjá á þessu ári. Hún lýsir sér einfaldlega þannig að Dwayne Johnson ákveður að gefa strákpjakkanm Hutcherson óvenjuleg en samt frekar lógísk ráð um hvernig skal næla í stelpu. Af óskiljanlegum ástæðum endar massatröllið á því að dilla brjóstvöðvunum (með bongó-tónlist í spilun undir) á meðan krækiber eru köstuð í hann svo þau geti skoppast af karla-túttunum hans. Þessi sena er óhuggulega lengi í spilun og er án nokkurs vafa á með því furðulegasta sem ég hef séð Johnson gera, og ég tek það fram að The Tooth Fairy (!) og Southland Tales (!!) eru báðar taldar með. Ég held að ég hafi fengið verk í rifbeinin eftir að hafa hlegið að þessari steik, út af því hversu ófyndin og handahófskennd hún var. Ég gat ekki horft á restina af myndinni sömu augum. Johnson reynir að toppa síðar í myndinni með að spila Sinatra-lagið It’s a Wonderful World með óviðeigandi perraglotti allan tímann. Það gekk samt ekki því túttudansinn var alltof mikil sjokksprengja.
Það er eitthvað svo merkilegt við það hvað Johnson er mikið að fíla sig í þessu barnalega ævintýri. Flestir myndu sofa í gegnum svona hlutverk en áhuginn hans og húmor gerir suma kafla miklu skemmtilegri heldur en þeir eiga að vera. Leikararnir eru reyndar almennt frekar slakir (nema Michael Caine) vegna þess að leikstjórinn er ekkert að sýna þeim áhuga, og þar að auki eru línurnar í handritinu oft alveg glataðar. Myndin telur sig þó hafa nóg annað mikilvægt til að hugsa um heldur en leikara. Í augum aðstandenda eru þeir bara eins og hver önnur tölvubrella. En annars er myndin ekkert alltaf að rokka í brelludeildinni.
En hvað getur maður annað sagt? Þessi mynd er oft svo heiladauð að ég gat ekki annað en hætt að rýna í augljósu, slæmu kostina og hlegið eins og fábjáni yfir mest öllu ruglinu. En þessi mynd er líka eins dæmigerð og ævintýramyndir gerast. Ég hef séð þær verri og vissulega hef ég séð þær betri. Journey 2 gerði mér allavega þann greiða að vera þolanlegri bíóferð heldur en fyrri myndin var, og þótt söguþráðurinn og boðskapurinn noti elstu klisjur sem til eru, þá get ég reyndar sagt að ég hafi fengið ýmislegt sem mér datt aldrei í hug að ég myndi sjá á ævi minni; T.d. Michael Caine – einn svalasta gamlingja í heimi – fljúga um á risavaxinni býflugu og haug af berjum skoppast af brjóstvöðvunum á The Rock.
(5/10)