Það er ávallt saga til næsta bæjar þegar leikstjórinn og Íslandsvinurinn Quentin Tarantino sendir frá sér nýja kvikmynd, en nú er einmitt von á einni slíkri, þeirri níundu í röðinni frá leikstjóranum. Samkvæmt Deadline vefnum þá hefur hann átt í viðræðum við leikara sem hann hefur unnið með áður, menn eins og Brad Pitt og Leonardo DiCaprio. Einn nýr leikari gæti mögulega bæst í þennan fríða flokk, enginn annar en Tom Cruise!
Samkvæmt Deadline þá hefur Tarantino átt samræður við Cruise um verkefnið. Sagt er að kvikmyndin muni gerast á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar, og fram á þann áttunda. Tarantino hefur að sögn, borið víurnar í Margot Robbie, til að leika hlutverk leikkonunnar Sharon Tate. Sögur hafa verið hávarar um að Tarantino sæki innblástur í myndina í sögu fjöldamorðingjans og sértrúarsafnaðarleiðtogans Charles Manson, en hann hefur borið þær sögusagnir til baka. Sagan muni þó gerast í því andrúmslofti.
Sögur herma einnig að Tarantino sé hættur að vinna með framleiðslufyrirtækinu The Weinstein Company, eftir að ásakanir á hendur Harvey Weinstein um kynferðisáreitni og -glæpi, komust í hámæli.
Leikstjórinn hefur ráðið nýjan framleiðanda fyrir myndina, Harry Potter framleiðandann David Heyman. Sagt er að ýmis framleiðslufyrirtæki séu nú á eftir Tarantino og reyni að lokka hann til sín.
Tökur kvikmyndarinnar eiga að hefjast í Los Angeles um mitt næsta ár, og stefnt er að frumsýningu árið 2019.