Nýjasta kvikmynd leikstjórans Tarsem Singh, Immortals, sló aðrar kvikmyndir út af laginu um helgina í Bandaríkjunum með heilar 35 milljónir dollara í tekjur. Tarsem er nú upptekinn við gerð næstu myndar sinnar, Mirror Mirror, en hefur þó skorað á Cartoon Network að hafa samband við hann til að leikstýra leikinni kvikmynd byggða á marglofuðu teiknimyndaseríunni Samurai Jack.
Þættirnir hófu göngu sína árið 2001 á sjónvarpsstöðinni Cartoon Network og voru hugfóstur rússneksa snillingsins Genndy Tartakovsky. Þættirnir fjölluðu um þagmælta samúræjann Jack sem á í höggi við djöflalegan meistara hamskipta, Aku. En í miðjum bardaga þeirra tekst Aku að senda Jack í framtíðina þar sem illska Akus ræður ríkjum og þarf Jack að finna leið til að snúa aftur til síns tíma og koma í veg fyrir þessa ófögru framtíð.
Þættirnir eru mjög vel lofaðir meðal gagnrýnenda og hafa hlotið fjögur Emmy verðlaun. Efnið hefur áður vakið athygli Hollywood-manna á borð við Brett Ratner sem átti að leikstýra verkefninu fyrir New Line Cinema á sínum tíma, en réttindi efnisins eru nú aftur í höndum Cartoon Networks.
Singh segist ekki vera hrifinn af myndasögum en hann elskar teiknimyndir, þ.á.m. Samurai Jack. Hann talaði einnig í viðtali við Hollywood Reporter um að hann hefði áhuga á að leikstýra myndum sem leggja mikla áherslu á samtöl og nefnir þar My Dinner With Andre og Knife in the Water sem dæmi- þetta þykir sérkennilegt þar sem hann er mjög sjónrænn leikstjóri og er þannig auðveldara að sjá hann í leikstjórastólnum fyrir verk eins og Samurai Jack.
Eru einhverjir fleiri aðdáendur þagmælta samúræjans? Hvernig lýst ykkur á að Singh sem hugsanlegan leikstjóra Samurai Jacks? Þættirnir eru mjög þöglir þannig ég myndi telja þetta vera tilvalið efni fyrir listrænan leikstjóra eins og Singh. Í það minnsta væri það sjónrænt séð áhugavert.