Tatum í Gullna hringinn

Bandaríski leikarinn Channing Tatum er nýjasta viðbótin í leikarahóp Kingsman: The Golden Circle,  eða Kingsman: Gullni hringurinn, í lauslegri snörun, en Tatum tísti fréttunum fyrir helgina.


Heimildir Variety tímaritsins herma einnig að tónlistarmaðurinn Elton John, eigi í viðræðum um að leika stórt hlutverk.

Channing-Tatum-channing-tatum-7798977-1280-1024

Matthew Vaughn snýr aftur í þessari framhaldsmynd af hinni vel heppnuðu Kingsman: The Secret Servie sem frumsýnd var árið 2014. Myndin var byggð á teiknimyndabókinni The Secret Service eftir þá Dave Gibbons og Mark Millar, og fjallaði um þjálfun nýliða í leyniþjónustuna, sem þarf að berjast við brjálæðinginn Richmond Valentine, sem Samuel L. Jackson leikur, sem hyggur á heimsyfirráð.

Fyrsta myndin þénaði 415 milljónir Bandaríkjadala um heim allan. Colin Firth, Mark Strong og Michael Caine léku einnig stór hlutverk.

Halle Berry hefur átt í viðræðum um að leika yfirmann leyniþjónustunnar. Strong og Firth eru mjög líklegir til að endurtaka sín hlutverk, samkvæmt Variety.

Myndin er væntanleg í bíó 16. júní, 2017.

Nýjasta mynd Tatum, Gambit, var frestað á síðasta ári og því myndaðist nægt svigrúm í dagbók leikarans til að hann gæti tekið að sér hlutverkið í Kingsman, áður en hann byrjar að vinna að blendingsmyndinni 23 Jump Street/Men in Black.

Tatum sást síðast í Coen bræðra myndinni Hail, Casesar!