Terminator leikari í 6 mánaða fangelsi

Terminator 2 stjarnan Edward Furlong hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að brjóta skilorð þegar hann var tekinn og fangelsaður í Van Nuys í Kaliforníu í síðasta mánuði fyrir meintar barsmíðar. Skilorðsdóminn fékk hann upphaflega árið 2010.

Í Terminator 2: Judgement Day lék Edward Furlong uppreisnarforingjann John Connor á yngri árum.

„Við höfum gert okkar besta hér hjá okkur, og með samvinnu við saksóknara borgarinnar og dómstóla, fékk Hr. Furlong tækifæri til að sleppa við að fara í fangelsi þegar við sömdum um að hann myndi sleppa við refsingu í tveimur málum gegn því að skrá sig á meðferðarstofnun, sem er óvenjulegt í málum þar sem ofbeldi kemur við sögu,“ sagði lögmaður Furlong í samtali við E! News fréttaveituna.

Edward Furlong hinsvegar hafnaði því að fara í meðferð og því gat dómarinn ekki annað en dæmt leikarann í fangelsi. „Við vonum að Hr. Furlong noti þessa reynslu, jafn ógeðfelld sem hún er, að hugsa sig vel um og fara í meðferð þegar hann sleppur út,“ bætti lögmaðurinn við.

Samkvæmt upplýsingum frá fangelsinu þá gæti Furlong sloppið úr fangelsi í maí nk., jafnvel þó að dómari hafi skipað svo um að dvölin yrði ekki stytt vegna þess tíma sem hann hefði þegar eytt bak við lás og slá eða af öðrum orsökum.

Furlong fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm árið 2010 fyrir að brjóta nálgunarbann sem fyrrum eiginkona hans, Rachael Kneeland, fékk sett á hann.