Terminator Salvation – hvernig fannst ykkur?

Nýjasta Terminator-myndin var frumsýnd hérlendis rétt fyrir helgi og virðist hún hafa fengið skemmtilega misjafnar viðtökur meðal fólks. Gagnrýnendur virðast vera flestir annað hvort neikvæðir eða dæma myndina í besta falli „ágæta.“ Það má þó finna fáeinar undantekningar.

Myndin virðist samt ekki alveg vera að mæta væntingum í miðasölunni vestanhafs. Hún kostaði um $200 milljónir í framleiðslu en hefur hingað til ekki grætt nema rúmar $100 milljónir. Það telst nokkuð slappt fyrir PG-13 sumarhasar/framhaldsmynd sem skartar eðalleikaranum Christian Bale í stærsta aukahlutverki sínu til þessa.

Ég hef ákveðið að gera þetta reglulegt hér á vefnum í sumar með helstu stórmyndirnar eftir að The Hangover umræðunni gekk svona vel meðal notenda (nokkur kvót þaðan fóru m.a.s. í Moggann – vel gert!). Svo ég spyr ykkur einfaldlega:

Hvernig fannst ykkur Terminator Salvation? (kommentin bíða hér fyrir neðan)