Það virðist fleira hrjá unga Jedi riddara en Svarthöfði og myrkru öflin því Tesco bannaði nýlega hinum 23 ára gamla Daniel Jones að vera með Jedi hettuna sína á sér inn í búð. Daniel sem stofnaði kirkju Jedaisma á Englandi var að reyna versla sér eitthvað í matinn í Tesco, Whales, þegar honum var sagt að hann þyrfti annaðhvort að taka af sér hettuna eða yfirgefa verslunina.
Kirkjan sem var stofnuð árið 2007 hefur fleiri meðlimi í Englandi heldur en Vísindakirkjan, sem John Travolta og Tom Cruise trúa á, eða alls 400.000 manns!
Samkvæmt þeirra trúabrögðum og siðum eiga Jedi riddarar að vera með hettu á almannafæri. Daniel lýsir atburðum þannig að 3 starfsmenn hafi staðið yfir sér ógnandi og sett honum þessa úrslitakosti. (Starfsfólk Tesco er greinilega „from the dark side“).
Tesco sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu vegna atviksins:
,,Hann er ekki í banni. Jedi riddarar eru velkomnir að versla hjá okkur, þó við biðjum þá kurteisislega að taka af sér hettuna þegar þeir koma í verslunina til okkar… Obi-Wan Kenobi, Yoda og Logi Geimengill hafa allir komið hettulausir í verslunina til okkar án þess að stíga yfir til myrkru aflanna. Sá eini sem hefur neitað að taka af sér hettuna var hinn illi Keisari… ef Jedi riddarar labba um búðina hjá okkur með hetturnar á þá sjá þeir ekki öll tilboð sem bjóðast í versluninni.“
Hinn ungi Jedi riddari íhugar nú að skipuleggja mótmæli gegn Tesco.

