Kvikmyndaverið Warner Bros vinnur nú að endurgerð á The Bodyguard frá árinu 1992. Upprunalega myndin skartaði Kevin Costner í hlutverki leyniþjónustumanns sem er ráðinn til að vernda heimsfræga söngstjörnu, sem leikin var af Whitney Houston. Myndin sló rækilega í gegn og halaði inn rúmlega 410 milljón dölum.
The Bodyguard verður uppfærð til að spegla nútímsamfélag betur, en hlutverki leyniþjónustumannsins verður breytt í fyrrum hermann sem þjónaði í Írak. Hann yfirgefur herinn og er ráðinn sem lífvörður ungrar söngkonu sem óttast um líf sitt. Hann kemst þó að því að í heimi Twitter, TMZ og Google Maps hefur almenningur mikinn aðgang að stjörnunum, og gerir það starf hans mun erfiðara.
Handritshöfundarnir Jeremiah Friedman og Nick Palmer hafa verið ráðnir til að skrifa handritið að myndinni, en ekki hefur verið ráðið í nein hlutverk.
– Bjarki Dagur