Tómas Valgeirsson gagnrýnandi fór í bíó og sá gamanmyndina og „líkamsskiptimyndina“, eins og Tómas kallar hana, The Change-up. Myndin var vinsælasta myndin á Íslandi í síðustu viku samkvæmt lista SMÁÍS.
Fyrirsögnin á umfjölluninni er: „Byrjar illa en batnar svo með tímanum“, og í 6 stjörnu umfjöllun segir Tommi meðal annars: „Helsti styrkleiki sem líkamsskiptamynd getur haft er gott skemmtanagildi og spillir góður húmor svosem ekki fyrir neinu.
Þessi mynd missir samt ekki beint dampinn í fyrri helming heldur er hún skelfilega ófyndin strax frá byrjun. Opnunarsenan setur alveg réttan svip á það sem koma skal. Hún inniheldur óhugnanlegt, tölvugert ungabarn lemjandi hausnum fram og aftur (ekki spyrja!), tölvugerðan endaþarm (?!) og að lokum nærskot af Jason Bateman að fá tvær kúkaslettur fljúgandi framan í fésið á sér. Þetta er akkúrat þessi týpa af húmor sem Adam Sandler hlýtur að tilbiðja, og ef þér finnst þetta hljóma fyndið þá er bókað að restin af smekklausa gríninu eigi eftir að lama þig af hlátri. Smekklaust grín tapar stundum kryddinu ef það er einungis notað til að sjokkera áhorfendur. Húmorinn í The Change-Up er barnalega grófur og missir gjörsamlega marks út af mistækri leikstjórn. Ryan Reynolds fær sinn venjulega skerf af ágætum línum, en almennt er húmor myndarinnar alveg úr takt við síðari helminginn. Þá ákveður myndin allt í einu að skipta um gír og breytist í ofurlanga mynd sem reynir að vera hjartnæm. Það fyndna er að henni tekst það, eða næstum því,“ segir Tómas meðal annars í umfjöllun sinni.
Smellið hér til að lesa dóminn í heild sinni.
Síðar í dag koma tveir funheitir dómar til viðbótar frá Tómasi, en þar segir hann skoðun sína á myndunum Final Destination 5 og The Tree of Life.