Eins og flestum aðdáendum leikstjórans Quentin Tarantino er kunnugt þá hætti hann við að gera kvikmyndina The Hateful Eight eftir að handritið að myndinni lak til umboðsmanna í Hollywood.
Tarantino segist hafa komist að lekanum þegar umboðsmenn byrjuðu að hringja í hann og biðja um hlutverk fyrir leikara sína. Tarantino hefur þó sagt að hann sé byrjaður að endurskrifa handritið og er því ekki við öðru að búast en að myndin gæti orðið að raunveruleika.
Leikarinn Kurt Russell var í útvarpsviðtali á dögunum þar sem hann uppljóstraði því að tökur á myndinni myndu eflaust hefjast í byrjun næsta árs. „Ég er að undirbúa mig fyrir hlutverk í kvikmynd Tarantino sem ber nafnið The Hateful Eight og hefjast tökur líklega í byrjun næsta árs.“ sagði Russell í viðtalinu.
Samuel L. Jackson hefur einnig verið orðaður við kvikmyndina og á Tarantino að hafa talað við hann nýverið um stórt hlutverk í myndinni og að endurskrif séu hafin. Upprunalega voru þeir Michael Madsen, Christoph Waltz og Tim Roth hugsaðir í meginhlutverkin.