,,Hvernig er hægt að gera mynd eftir Sims tölvuleiknum?“ spyrja margir sjálfan sig eflaust núna. Staðreyndin er sú að þessi hugmynd hefur verið í gangi í þónokkurn tíma, en ekki komist í framkvæmd vegna hugmyndaleysis þegar kemur að almennilegum söguþræði.
The Sims er einn frægasti tölvuleikur samtímans, en í honum er hægt að stjórna lífi og híbýlum tölvugerðra manneskna, t.d. með því að láta þau fá störf eða fara í skóla. Nú hefur framleiðandi myndarinnar, John Davis, opinberað hvernig hann ætlast til að koma tölvuleiknum yfir á hvíta tjaldið.
,,Í The Sims er hægt að stjórna tölvugerðum heimi. Í myndinni okkar verða tveir strákar, einn 16 ára og annar 14 ára sem finna skrýtinn hlut sem við ætlum að láta heita The Sims Infinity Pack, sem er einskonar tölvuleikur sem þeir finna í undarlegri tölvuleikjabúð. Þeir gera sér fljótlega grein fyrir því að þeir geta skannað sinn eigin heim inn í leikinn því þetta er raunverulegasti Sims leikurinn sem þeir hafa spilað til þessa. Þegar þeir byrja að spila hann þá sjá þeir strax að aðgerðirnar í leiknum hafa áhrif á raunveruleikann. Þeir hugsa sér þá gott til glóðarinnar því í þeirra augum geta þeir stjórnað heiminum, sem verður þó erfiðara en þeir bjuggust við.“ sagði Davis í viðtali.
Ekkert hefur verið ákveðið meira varðandi myndina, þ.e. hvorki handrit, tökudagsetningar né hver eigi að setjast í leikstjórastólinn.

